Morgunblaðið

 

Fimmtudagur 14. September 2000.

 

Fágaður söngur.

 

SÓLSKIN Í BÆINN

Perluvinir – 2000. Kvartettinn skipa: Kristjana Gestsdóttir ( sópran ), Jóhanna Steinþórsdóttir ( alt ), Gunnar Þór Jónsson ( tenór ), Sigurður Loftsson ( bassi ).

Aðstoð á æfingum: Þorbjörg Jóhannsdóttir. Organisti. Upptaka og vinnsla: Mix. Upptökur: Steinþór Birgisson. Klipping Valgeir Ísleifsson og Gunnar Þór Jónsson. Hljóðblöndun: Jón Steinþórsson. Diskurinn er tileinkaður minningu Lofts S. Loftssonar, tónlistarmanns í Breiðanesi.

 

AFTAN á hljómdiskinum gefast m.a. þær upplýsingar að meðlimir kvartettsins búi allir í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu og hafi starfað saman sem kvartett í 5ár. Kvartettinn hefur komið fram við margvísleg tækifæri, innan sveitar og utan, við alls konar mannfagnaði, kirkjulegar athafnir og sungið fyrir ferðamenn, innlenda og erlenda. Upplýsingarnar láta ekki mikið yfir sér, enda vissi undirritaður ekkert um tilvist þessa sönghóps, en ljóst má vera eftir ánægjulega hlustun að hér eru engir viðvaningar á ( í tónlistarlegum skilningi ) ferðinni: söngurinn er fágaður og „músikalskur “, með fínum áherslum og góðu jafnvægi milli radda.

 

Ber m.ö.o. vott um smekkvísi og þekkingu, en þar á Hilmar Örn Agnarsson hlut að máli fyrir tónlistarlega ráðgjöf. Ekki er ástæða til að minnast sérstaklega á einhver lög öðrum fremur, svo jafngóður er flutningurinn – að það jaðrar við það sem kalla mætti ( og það óverðskuldað ) „einhæfni“ eða jafnvel „skort á ævintýramennsku “.

 

Lagavalið, sem er í sjálfu sér fínt en fremur hefðbundið, á hér etv. Hlut að máli. Eða bara „dyntir gagnrýnandans“. Varla þarf að taka fram að raddirnar allar eru góðar og falla vel saman og hljóðvinnsla er með ágætum. Allt er þetta án undirleiks, sem er vandasamara og reynir meira á tónvísi flytjenda. Þá er bara eftir að óska þessum ágæta sönghópi, sem nýtur þeirra forréttinda að eiga heima í einhverri fegurstu sveit landsins , til hamingju með hljómdiskinn. Allar upplýsingar um efni söngvanna eru á ensku, sem ætti ekki að koma að sök þar sem íslenskir hlustendur annaðhvort þekkja það eða geta ráðið í það af skýrum flutningi.

 

Oddur Björnsson